Innlent

Ótækt að ríkið stýri framvindu

Róbert Spanó
Róbert Spanó

Sérstakar lagasetningar í tengslum við mál þeirra sem dvöldu á vistheimilum ríkisins verða skoðaðar á seinni stigum rannsóknar um vistheimili hins opinbera. Þetta segir Róbert Spanó lagaprófessor. Geir Haarde forsætisráðherra skipaði hann yfir nefnd sem ætlað er að skila greinagerð í lok þessa árs um aðbúnað barna á upptökuheimilum á miðri síðustu öld. Áætlað er að nefndin taki til starfa á næstu vikum.

Um fimmtán menn sem vistaðir voru sem drengir á Breiðavík hafa ákveðið að stefna íslenska ríkinu. Georg Viðar Björnsson sem fer fyrir hópnum segir ótækt að ríkið, sem sé sökudólgur í málinu, ákvarði framvindu þess frá upphafi til enda. Þolendur eigi að leita réttar síns sjálfir. Magnús Björn Brynjólfsson, lögmaður Georgs, hefur bent á til þess að hægt verði að reka málið fyrir dómi verði að koma á sérstökum lögum um þetta mál þar sem brotin séu löngu fyrnd. Slíkt segir hann hafa verið gert í öðrum löndum þar sem svipuð staða hafi komið upp.

Ragnheiður E. Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir hlutverk nefndarinnar meðal annars að kanna lagasetningar í öðrum löndum í tengslum við svipuð mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×