Viðskipti innlent

Kauphöllin vill bjóða val um krónu eða evru

Íslensk fyrirtæki sem hafa megnið af starfsemi sinni, tekjum og skuldum í útlöndum og vilja laða til sín erlent fjármagn þrýsta á að þau fái skráð hlutabréf sín í evrum í kauphöllinni
Íslensk fyrirtæki sem hafa megnið af starfsemi sinni, tekjum og skuldum í útlöndum og vilja laða til sín erlent fjármagn þrýsta á að þau fái skráð hlutabréf sín í evrum í kauphöllinni MYND/AFP

Búist er við að nokkur fyrirtæki sem skráð eru í kauphöllina hér fari á fyrri hluta ársins fram á að skrá bréf sín í evrum. Kauphöllin vill bjóða fyrirtækjum val. Samráðsnefnd vinnur í málinu. Fái félög ekki að skrá sig í evrum velta sum hver fyrir sér flutningi annað.

Kauphöllin vill að fyrirtæki landsins hafi val um hvort þau skrái hlutabréf sín í krónum eða evrum. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, vonast til þess að svo geti orðið strax á seinni hluta þessa árs.

„Við munum gera það sem við getum til að veita þessum fyrirtækjum þá þjónustu að þau geti einfaldlega valið um mynt hjá okkur, hvort þau eru í evrum eða krónum. Og við gerum okkur vonir um að það verði mögulegt að haga málum þannig að fyrirtækin geti haft þetta val á síðari hluta þessa árs,“ segir hann og telur að rétt að fyrirtækin taki sjálf ákvarðanir í þessum efnum út frá því hvað þjóni þeirra hagsmunum best.

Sjálfsákvörðun fyrirtækjanna um gjaldmiðil í hlutabréfaskráningu telur hann um leið þjóna best hagsmunum markaðarins og hagkerfisins hér.

Þórður segir að möguleg skráning hlutabréfa sé í skoðun og þar hafi nokkra yfirumsjón samráðsnefnd Seðlabanka Íslands, Verðbréfastofu og kauphallar. „Það er að minnsta kosti einn vettvangur þar sem málið er rætt, en það er líka rætt á fleiri stöðum og um að gera að öll rök komi fram á næstu vikum eða mánuðum og menn komist einfaldlega að skynsamlegri niðurstöðu með hagsmuni bæði markaðarins og hagkerfisins að leiðarljósi.“

Hann segist þó ekki verða var við að neins staðar sé mótstaða við evruskráningu hlutabréfa. „Það eina sem menn hafa velt fyrir sér eru fjármálastofnanirnar og vangaveltur sem að þeim snúa, en ég tel að það sé einfaldlega atriði sem skoða þurfi gaumgæfilega,“ segir Þórður og telur að tilfærsla fyrirtækja í erlenda mynt sé bara hluti af þeirri alþjóðavæðingu sem sé að eiga sér stað.

Enn hefur ekkert fyrirtækið farið formlega fram á að breyta skráningu bréfa sinna, þótt viðræður hafi verið í gangi um málið. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru helst fjögur fyrirtæki sem eru áhugasöm um að skrá hlutabréf sín í evrum, Actavis, Bakkavör, Marel og Össur, en öll gera þau upp reikninga sína í erlendum gjaldmiðlum og mun hluti þeirra þegar á fyrir hluta ársins stefna á að leggja inn formlega beiðni þar að lútandi. Þá sé evruskráningin þeim slíkt hagsmunamál að hluti þeirra að minnsta kosti hugleiðir að skrá sig annars staðar fáist hún ekki í gegn.

„Augljóst mál er fyrir fyrirtækin að velta fyrir sér tvíhliða skráningu erlendis telji þau að fælingarmáttur krónunnar sé slíkur að hann skaði þau. Þá hljóta þau auðvitað að velta slíku fyrir sér.“ Þórður segir eðlilegast að bregðast við þessum vangaveltum með því að bjóða fyrirtækjunum upp á val á gjaldmiðli í skráningu bréfa sinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×