Heildarvelta á hlutabréfamarkaði í júlí nam fimmtíu og fjórum milljörðum króna og hefur ekki verið minni í heilt ár. Heildarvelta á skuldabréfamarkaði nam 91,7 milljörðum króna í mánuðinum.
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um 3,76 prósent í júlí. Tæplega tíu prósenta lækkun varð á bréfum í FL Group, rúmlega átta prósenta lækkun á Dagsbrún og sex prósent í Glitni.
Mest hækkun varð á bréfum í Mosaic Fashions í mánuðinum; rúmlega sex prósent. Bakkavör og Marel hækkuðu um fimm prósent.
Frá áramótum hefur átján prósenta lækkun orðið á Landsbankanum og FL Group. Af félögum úrvalsvísitölunnar hefur Actavis vegnað best, en bréf í félaginu hafa hækkað um tæp tuttugu og fjögur prósent það sem af er ári.
Fram kemur í Morgunkornum Glitnis að stemning á mörkuðum beri merki um árstímann auk ástands mála í efnahagslífinu. Flest sex mánaða uppgjör hingað til hafi verið yfir væntingum greiningaraðila en framkallað lítil áhrif hjá greiningaraðilum.