Innlent

"Farvegur þjóðarsáttar, " segir iðnaðarráðherra um tillögur auðlindanefndar

"Farvegur þjóðarsáttar um viðkvæmt deilumál," segir iðnaðarráðherra um tillögur auðlindanefndar um verndun og nýtingu auðlinda sem kynntar voru í dag. Fulltrúar stjórnarandstöðu í nefndinni gerðu þó athugasemdir við hvernig rannsóknarleyfum um nýtingu jarðhita og vatnsafls verður úthlutað fram til ársins 2009

Auðlindanefnd var skipuð af iðnaðarráðherra í vor til að gera tillögur um hvernig valið skuli á milli umsókna um rannsóknar-og nýtingarleyfi auðlinda í jörðu. Henni var einnig falið að marka framtíðarstefnu um nýtingu auðlinda. Helstu niðurstöður nefndarinnar um verndar og nýtingaráætlun eru þessar :

1) Alþingi samþykki ekki síðar en árið 2010 lög eða þingsályktanir um sérstaka verndar-og nýtingaráætlun fyrir auðlindir í jörðu (m.a. jarðhita) og vatnsafl til raforkuframleiðslu til t.d. 25 ára í senn en með ákvæði um endurskoðun á gildistímanum

2) Víðtækt samráð verði um mótun verndar- og nýtingaráætlunar með því að skipa starfshóp þar að lútandi. Í honum verði fulltrúar forsætisráðuneyis, iðnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar, Orkustofnunar, Íslenskra orkurannsókna, náttúruverndarsamtaka, Smaorku og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

3) Verndar-og nýtingaráætlunin verði gerð með tilliti til niðurstaðna rannsókna og mats á hugsanlegum virkjunarkostum í skýrslu um niðurstöður 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og niðurstaða rannsókna og mats 2. áfanga rammaáætlunar, sem áætlað er að liggi fyrir árið 2009. Jafnframt verði litið til annarra rannsókna og áætlana eftir því sem við á og er þá sérstaklega horft til gildandi náttúrverndaráætlunar á hverjum tíma og grunnrannsókna Náttúrufræðistofnunar sem áætlað er að ljúki á næstu árum.

4) Stjórnvöld tryggi fjármuni til að ljúka nauðsynlegum grunnrannsóknum vegna rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma árið 2009

Iðnaðarráðherra segir að tillögur auðlindanefndar séu merkur áfangi í því að mynda heilstæða áætlun um nýtingu og vernd auðlinda hér á landi. Þegar ráðherra er inntur eftir því hvaða áhrif skýrslan hafi á auðlindanefndar á undirbúning verkefna á sviði stóriðju í nánustu framtíð eins og stækkun álversins í Straumsvík, álver á Húsavík og Helguvík, segist hann ekki geta svarað því en þessar tillögur tilheyri framtíðinni.

Athygli vekur að verndar- og nýtingaráætlunin tekur ekki gildi fyrr en árið 2010 og hefur nefndin gert tillögur um hvernig umsóknum um rannsóknar-og nýtingarleyfi verði háttað fram að þeim tíma. Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður Vinstri Græns framboðs og nefndarmaður í auðlindanefnd, skrifaði undir skýrsluna en bókaði þó fyrirvara. Henni finnst ekki nógu langt gengið í verndaráætlunum og alls óljóst með úthlutun rannsóknarleyfa næstu fjögur árin.

Þingflokkur Samfylkingarinnar ályktaði um tillögur nefndarinnar og fagnar áfangasigri sem náðst hefur í náttúruverndar-og auðlindamálum. Enn vanti þó töluvert upp á að tillögur auðlindanefndar til að ná sátt um náttúruverndar - og auðlindamál og til að ná tökum á virkjana-og stóriðjuframkvæmdum þarf að veita Alþingi fulla heimild til ráðstöfunar á takmörkuðum losunarheimildum

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×