Erlent

Ísraelar handtaka palestínska þingmenn og ráðherra

Spenna magnast enn á herteknu svæðunum eftir að Ísraelar handtóku fjölda palestínskra þingmanna og ráðherra. Ráðherrar sem ekki eru í höndum Ísraela hafa farið í felur.

Eitt fórnarlamb átakanna var jarðsett í dag. Það var átján ára landnemi, sem palestínskir byssumenn rændu og skutu til bana. Enn er óvíst um afdrif ísraelska hermannsins sem var tekinn á sunnudag.

Ísraelskur her, grár fyrir járnum, er kominn inn á Gaza svæðið. Í gær og í nótt tóku Ísraelar átta ráðherra Hamas stjórnarinnar í Palestínu höndum, um 20 þingmenn og nærri sextíu aðra embættismenn. Aðrir ráðherrar eru í felum og stjórn Palestínu er nú óstarfhæf.

Ísraelskar herflugvélar skutu í dag á bíl í Gazaborg, sem í voru palestínskir byssumenn. Þeir sluppu en ungur drengur meiddist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×