Erlent

Sharon vakinn á morgun.

Nú rétt í þessu tilkynntu læknar Ariels Sharon að hann yrði vakinn á morgun ef allt gengi að áætlun. Honum hefur verið haldið sofandi síðan hann fékk alvarlegt heilablóðfall á miðvikudagskvöldið og ekki verður hægt að meta ástand leiðtogans fyrr en hann vaknar.

Honum hefur verið haldið sofandi síðan hann fékk alvarlegt heilablóðfall á miðvikudagskvöldið og ekki verður hægt að meta ástand leiðtogans fyrr en hann vaknar.

Einn af skurðlæknum Sharons segir að líklega muni hann lifa af, en óvíst sé hvort hann muni nokkru sinni geta talað eða skilið annað fólk.

Ehud Olmert, sem hefur tekið við starfi Sharons til bráðabirgða, hélt sinn fyrsta ríkisstjórnarfund í morgun. Þar sagðist hann ætla að stjórna málum eins og Sharon hefði viljað.

Eitt af hans fyrstu verkum verður að ákveða hvort Palestínumenn í austurhluta Jerúsalem fái að kjósa í þingkosningunum í Palestínu í lok mánaðarins. Leyfi hann það ekki, gæti það sett kosningarnar í uppnám.

Ísraelskir fjölmiðlar segja að helstu samstarfsmenn Sharons vilji að Olmert taki við forystu í Kadíma flokknum og leiði hann í kosningunum í Ísrael í lok mars.

Shimon Peres, fyrrverandi forsætisráðherra og einn af aðalmönnunum á bakvið friðarferlið í Osló, sagðist í morgun styðja Olmert til forystu í Kadíma. Peres sem gekk í Kadíma fyrir nokkrum vikum vill ekki staðfesta að hann verði áfram í flokknum eftir brotthvarf Sharons.

Verði hann áfram í stjórnmálum verður það líklega í Kadíma, því Peres útilokaði í morgun að hann myndi aftur ganga í verkamannaflokkinn.

Innanbúðarmenn í Kadíma segja að Peres sé einn af fimm mönnum sem flokksmenn vilji í ráðherraembætti eftir kosningarnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×