Erlent

Al-Qaida hóta fleiri árásum þar til samtökin hafa náð völdum í Írak

Á annað hundrað manns hefur látið lífið í tveimur sprengjuárásum í Írak í dag. Ekkert lát virðist vera á árásum í landinu en al-Qaida samtökin hafa sagt að þeim verði ekki hætt fyrr en Bandaríkjamenn verði á bak og burt og þau hafi náð völdum í landinu. Að minnsta kosti sjötíu manns féllu í sprengjuárás í borginni Karbala í sunnanverðu Írak í morgun. Maður með sprengiefni bundin um sig sprengdi sig í loft upp í mannþröng nærri einu af helstu helgiskrínum sjía-múslima. Þá særður yfir sextíu í árásinni og er óttast að tala látinna eigi eftir að hækka til muna. Þá féllu að minnsta kosti sextíu manns og yfir þrjátíu eru særðir eftir að maður sprengdi sig í loft upp á fjölfarinni götu í borginni Ramadi í vesturhluta Íraks í dag. Hafa því á annað hundrað manns farist í sprengjutilræðum í landinu í dag, þar á meðal fimm bandarískir hermenn og vikan því orðin ein sú blóðugasta síðan Bandaríkjamenn ruddust inn í landið árið 2003. Al-Qaida hafa lýst því yfir að sprengjuárásum muni ekki linna fyrr en Bandaríkjamenn eru á bak og burt og samtökin hafa náð fullum völdum í Írak. George Bush, Bandaríkjaforseti hefur sagt að til standi að fækka í herliði Bandaríkjamanna þar sem Írakar hafa náð góðum tökum á ýmsum vandamálum. Herinn verði þó til staðar þar til Írakar hafa náð að koma lífi í eðlilegt horf. Bandaríkjaher hefur verið iðinn við að handtaka háttsetta meðlimi Al Qaida en erfiðlega gengur þó að fækka árásum á bandaríska hermenn, en Al Qaida segja þá vera aðal skotmörk samtakanna. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt að það muni taka góð tíu ár að koma lífi í landinu í eðlilegt horf en stjórnmálaskýrendur segja það mikla bjartsýni, litlar líkur séu á að hernum takist ætlunarverk sitt á svo skömmum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×