Erlent

Svarstýnir á bata

MYND/AP

Læknar Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, eru svartsýnir á að hann nái bata eftir heilablóðfallið sem hann fékk í gærkvöldi. Talsmaður Hamas-samtakanna segir gott að losna við Sharon, einn versta og grimmasta leiðtoga heimsins. Ehud Olmert, aðstoðarforsætisráðherra landsins, hefur tekið við völdum.

Heilablóðfall Sharons var mun alvarlegra en það sem hann fékk þann 18. desember síðastliðinn. Læknar eru ekki bjartsýnir um bata þrátt fyrir að tekist hafi að stöðva blæðingar í Sharons en hann gekkst undir aðgerð í nótt sem tók sjö klukkustundir. Sharon er sagður hafa lamast í neðri hluta líkamans og verður honum haldið sofandi í öndunarvél fram á sunnudag.

Eftir heilablóðfallið í desember, sögðu læknar Sharon, sem er 77 ára, hann vera allt of þungan en að öðru leyti við nokkuð góða heilsu. Aðstoðarforsætisráðherra Ísrael, Ehud Olmert, hefur tekið við völdum sem forsætisráðherra og stýrði hann neyðarfundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Enn er gert ráð fyrir þingkosningum þann 28. mars í Ísrael þrátt fyrir veikindi Sharons. Stjórnmálaskýrendur þar í landi segja stjórnmálaástandið vera í mikilli óvissu og ekki síst framtíð Kadima-flokksins sem Sharon er nýbúinn að stofna eftir að hann sagði sig úr Likudbandalaginu.

Skoðanakannanir sem gerðar voru eftir að Sharon fékk fyrra heilblóðfallið hafa gert ráð fyrir að Kadima-flokkurinn myndi bera sigur úr býtum í kosningunum í mars og fengi um þriðjung sæta af þeim 120 sætum sem í boði eru á ísraelska þinginu, sem kallast Knesset. Litlar líkur eru nú taldar á að svo verði þar sem Sharon sjálfur er í raun flokkurinn. Óvíst er hvort dagar Sharon séu brátt taldir en stjórnmálaskýrendur segja þó nærri öruggt að stjórnmálaferill forsætisráðherrans séu á enda.

George Bush Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi í morgun að Sharon væri maður hugrekkis og friðar. Ekki voru þó allir á sama máli og Bush. Talsmaður Hamas samtakanna sagði í morgun að Miðausturlönd væru betur sett án Sharons. Heimurinn væri um það bil að losna við einn af sínum verstu og grimmustu leiðtogum og voru kökur og annað góðgæti dreift um Gazasvæðið í morgun í tilefni dagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×