Erlent

Allir nema einn létust í námuslysinu

Gleði breyttist í mikla sorg og reiði þegar ættingjum manna sem lokuðust af í kolanámu í Bandaríkjunum var fyrst sagt að allir nema einn hefðu komist lífs af, en þremur klukkustundum síðar að einn hefði lifað en allir hinir látið lífið.

Ættingjar mannanna biðu í kirkju í kolanámubænum Tallmansville í Vestur-Virginíu. Sprenging varð í námunni í fyrradag og þrettán manns voru lokaðir inni. Ákafar tilraunir voru gerðar til að ná í þá. Í nótt bárust þær fréttir til ættingjanna að tólf mannanna væru á lífi. Þeir hefðu ákveðið að fara gangandi í kirkjuna fremur en að fara fyrst á sjúkrahús. Svo liðu þrjár klukkustundir. Þá tilkynnti fyrirtækið sem rekur námuna að þetta hefði verið misskilningur. Tólf menn af þrettán væru látnir.

Mennirnir voru fjóra kílómetra inni í námunni þegar sprenging varð á mánudag. Við sprenginguna mynduðust baneitraðar lofttegundir en súrefniskútur, sem hver maður var með, dugði bara í eina klukkustund.

Maðurinn sem komst lífs af úr slysinu liggur lífshættulega slasaður á sjúkrahúsi. Rannsókn á slysinu er þegar hafin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×