Erlent

Níu létust í rútuslysi í Svíþjóð

Í það minnsta níu manns biðu bana og tugir slösuðust í alvarlegu rútuslysi í Mið-Svíþjóð um hádegisleytið í dag. Fimmtíu farþegar voru um borð í rútunni sem virðist hafa runnið af ísilagðri hraðbrautinni á mikilli ferð.



Enn liggur ekki nákvæmlega fyrir hvað gerðist en svo virðist sem ökumaður rútunnar hafi misst stjórn á henni í hálkunni svo hún hafnaði á hvolfi ofan í skurði.



Rútan var á leið frá Skövde til Stokkhólms með 50 manns sem hugðust bregða sér í leikhús í höfuðborginni. Hópurinn átti um það bil 100 kílómetra ófarna þegar slysið varð.



Þegar sjúkralið kom á vettvang var aðkoman hræðileg, rútan var á hvolfi og hafði þakið lagst saman að mestu. Átta biðu bana í slysinu en 45 voru fluttir á sjúkrahús í Örebro og Eskilstuna, þar af voru 20 alvarlega slasaðir. Drjúga stund tók að losa fólkið úr flakinu en síðdegis hafði tekist að ná öllum út.



Undir kvöld tókst slökkviliði að lyfta flaki rútunnar og vonast er til að þannig verði hægt að ná út ökurita hennar svo orsakir slyssins verði ljósari.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×