Loðfeldir, mokkakápur og selskinnsjakkar eru dýrustu flíkur í sem hægt er að fá á Íslandi í dag. Vinsældir þeirra hafa farið vaxandi með árunum og eru kaupmenn sem selja slíkan vöru sammála um það að batnandi efnahagur í landinu spili þar inní.
„Ég panta loðfeldina mína frá París og sel ég alltaf hvert eitt og einasta stykki upp fyrir jólin enda er fallegur loðfeldur á óskalista hverrar einustu konu fyrir jólin," segir stórkaupmaðurinn Sævar Karl, en loðfeldirnir í hans búð eru á verðbilinu 200.000-600.000 krónur og því dýrustu flíkurnar í búðinni. „Loðfeldir eru fyrir karlmenn til að gefa konunum sem þeir elska í jólagjöf, segir meira en þúsund orð," segir Sævar Karl glaður í bragði.
Loðfeldir eru ekki lengur munaðarvara heldur eru þeir búnir að ryðja sér rúms innan tískuheimsins og eru búðir með notaðan fatnað einnig að selja loðfeldi á minni pening fyrir almúgann.
Þessa stundina eru loðfeldir heldur ekki bara fyrir kvenmenn því karlpeningurinn er að kveikja á þessari tískubólu og Eggert Jóhannsson feldskeri segir að karlar séu nú að bætast í hóp viðskiptavina sinni í vaxandi mæli. Helstu ráðamenn og viðskiptajöfrar þjóðarinnar hafa verið að láta sjá sig klæddir í loðfeldi og selskinnsjakka upp á síðkastið. „Rétt í þessu var ég að selja hjónum frá Hollandi sitt hvorn loðfeldinn," segir Eggert en segir að karlarnir séu hrifnari af selskinnsjökkunum og mokkakápunum. Útlendingar eru stór hluti af viðskiptavinum Eggerts en þá eru feldirnir sérpantaðir fram í tímann.
Verðbilið á loðfeldum er allt frá 200,000 og upp úr öllu valdi. Samkvæmt heimildum blaðsins er dýrasti loðfeldurinn í einni búð bæjarins á 1.200.000 krónur en ef verið er að sérpanta eða sérsauma getur verðið farið upp úr öllu valdi. Eggert gengur svo langt að segja að þau verð séu ekki prenthæf.
Það er meira að segja þannig að búðir með svona dýran fatnað eru undanskyldar almennum reglum um verðmerkingar í búðargluggum því verðið þykir það mikið að ekki er ráðlagt að flagga því.

.


.