Erlent

Logarnir risu 30 metra til himins

Slökkviliðsmaður reynir að slökkva eld í húsi sem kviknaði í vegna skógareldanna.
Slökkviliðsmaður reynir að slökkva eld í húsi sem kviknaði í vegna skógareldanna. MYND/AP

Einn hjálparstarfsmaður lést af völdum hjartaáfalls og annar liggur á sjúkrahúsi með þriðja stigs bruna á sextíu prósentum líkamans eftir baráttu við skógarelda norður af Sidney í Ástralíu.

Eldarnir náðu yfir nokkur þúsund hektara og þegar eldurinn var mestur reis hann allt að þrjátíu metra upp í loftið. Fjöldi manns hefur þurft að yfirgefa heimili sín og nokkur heimili hafa eyðilagst í eldinum. Íbúar hafa þó sloppið við meiðsl og útlitið er betra nú en það var í gær því farið er að rigna þar sem eldarnir geysa.

Phil Koperberg, slökkviliðsstjóri í Nýju Suður Wales sagði elda enn loga á þúsundum hektara lands og að það tæki sennilega fjóra daga að slökka þá alla. Hins vegar væri stafaði fólki og íbúabyggð ekki hætta af eldunum að sinni þó ástandið geti versnað aftur um helgina ef ekki tekst að slökkva eldana fyrir þann tíma.

Hundruð slökkviliðsmanna berjast nú við tugi elda sem enn loga. Búist er við miklum hita um næstu helgi en það eykur mjög hættuna á skógareldum. Slökkviliðsmenn reyna því allt hvað þeir geta til að slökkva eldana fyrir þann tíma.

Það er ekki aðeins í Ástralíu sem skógareldar loga. Eldar loga í Texas og Oklahoma í Bandaríkjunum. Á þessum slóðum er óvenju heitt og mikill vindur sem skapar eldinum kjöraðstæður og gerir yfirvöldum erfiðara fyrir við slökkvistarf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×