Innlent

Vatnsskemmdir í Gröndalshúsi

Eins og sjá má er húsið sérkennilegt í laginu, en það hefur ekki tekið miklum breytingum síðan á nítjándu öld.
Eins og sjá má er húsið sérkennilegt í laginu, en það hefur ekki tekið miklum breytingum síðan á nítjándu öld.
Nokkrar vatnsskemmdir urðu þegar rör fraus og sprakk í Gröndalshúsi við Vesturgötu fyrir skömmu. Húsið er illa einangrað og þrátt fyrir upphitun gaf einn ofninn sig í kuldakastinu.

Hjörleifur Stefánsson, arkitekt og ráðgjafi Árbæjarsafns, segir skemmdirnar litlar og minni en þær hefðu getað orðið. Smiður á hans vegum hafi komið að húsinu um morguninn og var samstundis kallaður út hópur manna til að stöðva flauminn og þurrka upp. Húsið sé annars vaktað daglega og í því virkt öryggiskerfi.

Gröndalshús var reist árið 1882 og er sögufrægt fyrir þær sakir að þar bjó Benedikt Gröndal skáld frá árinu 1888 og til dauðadags, annan ágúst 1907. Húsið er og sérkennilegt í laginu, tvílyft að framan en bakhliðin er einnar hæðar. Hjá Húsafriðunarnefnd ríkisins er til skoðunar að friða húsið.

Stjórn Árbæjarsafns hefur lengi viljað fá Gröndalshús flutt í Árbæinn og verður það gert innan skamms. Þetta hefur vakið nokkrar deilur um húsavernd almennt og hvort gömlum húsum sé betur komið í Árbænum eða í upprunalegu umhverfi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×