Viðskipti innlent

Seðlabankinn þegir í tvær til þrjár vikur

Eiríkur Guðnason Seðlabankastjóri
Eiríkur Guðnason Seðlabankastjóri

Óli Kristján Ármannsson

skrifar

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að setja á þagnartímabil í þrjár vikur fyrir útgáfu Peningamála og tvær vikur fyrir aðra vaxtaákvörðunardaga. Ákvörðun um þetta var tekin fyrir helgi að sögn Eiríks Guðnasonar seðlabankastjóra. Næsti vaxtaákvörðunardagur er 21. desember og fyrsta þagnartímabil bankans því þegar hafið.

Eiríkur segir það ekki síst vera fyrir ásókn greiningardeilda erlendra fjármálastofnana að þagnartímabilsleiðin hafi verið farin. „Þær hafa sóst hér eftir fundum og einhvern veginn hitt nákvæmlega á að vera svona skömmu fyrir ákvörðunardag,“ segir hann og bætir við að þekkist að sami háttur sé hafður á í öðrum seðlabönkum. Nú tjá starfsmenn bankans sig því ekki um stefnu hans eða efnahagsmál þegar að vaxtaákvörðun líður. „Við gefum út mikið efni með Peningamálum og nokkuð þegar aðrir ákvörðunardagar eru og okkur þykir það nóg. Svona framlag af okkar hálfu hefur stóraukist með Seðlabankalögunum og framkvæmd þeirra og ætti að nægja,“ segir hann.

Greiningardeildir bankanna hér segja ákvörðun bankans skiljanlega og í raun sé með þessu lítið annað gert en að formgera fyrirkomulag sem þegar hafi verið við lýði. Á fimmtudaginn eftir viku er aukavaxtaákvörðunardagur hjá Seðlabankanum, en í nóvember byrjun lét bankinn stýrivexti óbreytta í 14 prósentum, en hvað frekari hækkun í spilunum yrðu þróun efnahagsmála ekki hagfelld.

Greiningardeildir bankanna gera allar ráð fyrir hækkun. Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, segir flest það sem gerst hafi frá síðasta vaxtaákvörðunardegi ýta undir þörfina á hækkun og bendir þar bæði á gengisþróun og tölur um viðskiptahalla. Glitnir spáir 25 punkta hækkun.

Landsbankinn telur að hækkunin gæti numið allt að 50 punktum, með fyrirvara um hvernig hagvaxtarmæling sem birt verður í dag kemur út. Þá gerir greiningardeild Kaupþings ráð fyrir 50 punkta hækkun og rekur þörfina á henni ekki síst til lítils aðhalds í nýsamþykktum fjárlögum. Bent er á að fjárlögin geri ráð fyrir töluverðri lækkun skatta og hækkun útgjalda um leið.

Greiningardeildin segist óttast að vegið sé nærri grunnafkomu ríkissjóðs sem muni hefna sín um leið og þensla gangi niður. „Ennfremur, virðast allir hemlar á fjárfestingum ríkisins vera að gefa eftir og gildir einu hvort um sé að ræða bein ríkisútgjöld eða einkaframkvæmdir á vegabótum,“ segir bankinn og bendir á að baráttan við verðbólguna sé enn í algleymingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×