Erlent

Þrír létust í snjóflóði

Að minnsta kosti þrír skíðamenn létu lífið í snjóflóði sem féll á vinsælum austurrískum skíðastað um helgina. Víða um heim hefur andstyggilegt vetrarveður valdið usla og mannskaða. Hættuástandi hefur verið lýst yfir á mörgum skíðastöðum í Austurríki vegna yfirvofandi snjóflóðahættu. Mikil ofankoma, vindstrekkingur og svo skyndileg hláka ofan á allt saman veldur því að snjóflóð hafa víða fallið. Þrír Kanadamenn létu lífið þegar snjóflóð féll á skíðabrekkur nærri skíðastaðnum St. Anton í Austurríki á laugardag. Enn er leitað að einum Bandaríkjamanni sem var á snjóbretti á sama stað og er talinn hafa lent í flóðinu. Mennirnir höfðu farið út fyrir troðnar skíðabrekkur í leit að púðursnjó. Þá lést þýskur brettamaður á þýska skíðastaðnum Montafon. Austurrísk yfirvöld hafa tekið tæknina í þjónustu sína og senda skíða- og brettafólki smáskilaboð í síma til að vara það við yfirvofandi snjóflóðum. Hinum meginn á hnettinum, í Massachusetts og New Jersey í Bandaríkjunum, hefur líka verið lýst yfir neyðarástandi vegna stórhríðar sem þar gekk yfir í gær. Fjórtán dauðsföll hið minnsta eru rakin til óveðursins. Jafnfallinn snjór mældist yfir hálfur metri og fór reyndar sums staðar upp í tæpan metra. Þá fór frostið víða yfir tuttugu gráður. Rafmagnsleysi hefur verið viðvarandi, skólahaldi aflýst og fólki ráðlagt að halda sig heima. Tugþúsundir ferðamanna urðu strandaglópar á Austurströnd Bandaríkjanna þar sem aflýsa þurfti vel á annað þúsund flugferðum frá Chicago, New York og New Jersey.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×