Erlent

Forsetakosningarnar lítt spennandi

Lítil spenna ríkir vegna forsetakosninga í Palestínu, sem fara fram á morgun, enda eru úrslitin nánast gefin. Mahmoud Abbas verður kjörinn þó að enginn virðist hafa trú á stefnu hans. Talið er að hann hafi 100 daga til að skila árangri. Mahmoud Abbas nýtur yfirburðafylgis meðal Palestínumanna samkvæmt könnunum og trausts á alþjóðavettvangi. Töluverðar væntingar eru bundnar við hann sem eftirmann Jassirs Arafats, en þeir eru sagðir vera nánast eins ólíkir og hugsast gæti. Arafat var byltingarleiðtogi og hryðjuverkamaður sem var óhræddur við að fara sínu fram og láta á sér bera. Abbas er frekar dagfarsprúður maður í gráum jakkafötum, maður sem ekki fer mikið fyrir. Stefna hans er hófsöm og hann er andsnúinn ofbeldi. Í ljósi þess verða vinsældir hans að teljast undarlegar því að tveir þriðju hlutar Palestínumanna eru, samkvæmt nýlegri könnun, á því að ofbeldi og hryðjuverk hafi skilað meiru en viðræður. Abbas er mun hófsamari en mikill meirihluti Palestínumanna sem bendir til þess að hann hafi ekki mikinn tíma eftir kosningar til að sýna að aðferðir sínar skili árangri. Gerist ekkert fljótlega má búast við því að flokksfélagar hans gefist upp á honum og stefnu sem þeir hafa litla trú á. Abbas virðist meðvitaður um þetta og hefur því gert sitt besta til að höfða til allra í kosningabaráttunni. Markmið hans í embætti er ljóst. Hann lofar því að palestínskt barn muni fá að lyfta fána Palestínu á bænaturnum moska, á kirkjum og veggjum Jerúsalemborgar. Stjórnmálaskýrendur segja hann hafa hundrað daga til að skila árangri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×