Sport

Þvílík vika hjá Sigurði Ragnari

Síðasta vika var framherjanum Sigurði Ragnari Eyjólfssyni hjá ÍA ansi eftirminnileg á margan hátt. Hann kom inn á sem varamaður í liði Skagamanna í Keflavík og skoraði þar sigurmark ÍA gegn heimamönnum. Þetta sama kvöld eignuðust hann og kona hans svo litla stúlku og í kjölfarið spilaði Sigurður leik á Skaganum sem hann gleymir ekki í bráð. "Ég kom inn á sem varamaður á móti Keflavík og náði að skora sigurmark okkar í þeim leik. Það var afar mikilvægur sigur, því við Skagamann ætlum okkur að sjálfsögðu að ná þriðja sætinu í deildinni og gaman geta lagt sitt að mörkum til þess. Eftir leikinn brunaði ég svo fljótlega upp á fæðingardeild þar sem konan mín eignaðist litla stúlku um nóttina," sagði Sigurður, sem hafði í nógu að snúast eftir að barnið fæddist eins og gengur og gerist. "Ég var nú orðinn dálítið slappur á síðustu æfingunni fyrir leikinn gegn FH af því ég hafði mjög lítið sofið. Konan leyfði mér þó að hvíla mig vel fyrir leikinn gegn FH og svo fékk ég að heyra að ég yrði í byrjunarliðinu, þannig að ég var mjög spenntur. Okkur langaði mikið að verða fyrsta liðið til að leggja FH," sagði Sigurður, sem varla hefur órað fyrir því að hann yrði maðurinn á bak við sigur ÍA með því að skora bæði mörk liðsins. Fyrra mark Sigurðar var mjög glæsilegt, líklega eitt fallegasta mark sumarsins. "Já, ég var nokkuð ánægður með þetta mark og það var frábært að vinna FH-inganna fyrstir liða í deildinni. Við höfðum harma að hefna síðan þeir slógu okkur út úr bikarnum forðum og eftir leikinn hefur alls konar fólk verið að koma til mín og óska mér til hamingju með barnið, mörkin og sigurinn," sagði Sigurður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×