Erlent

Lofar samvinnu innan SÞ

Óvægnasti gagnrýnandi Sameinuðu þjóðanna heitir því að vera samvinnuþýður umbótasinni staðfesti Bandaríkjaþing hann sem sendiherra hjá samtökunum. Demókratar óttast að hann verði eins og naut í postulínsverslun. John Bolton verður seint sagður sérstakur aðdáandi Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur gagnrýnt samtökin harðar en flestir aðrir og lýst þeirri skoðun sinni að Bandaríkin ættu að nota Sameinuðu þjóðirnar þegar og eins og þeim hentaði. Það kom því mörgum á óvart þegar Bush forseti tilnefndi Bolton sem sendiherra hjá samtökunum og þungavigtarmenn á Bandaríkjaþingi hafa heitið því að koma í veg fyrir að hann hljóti starfann. Þeir gerðu harða hríð að Bolton þegar hann bar vitni fyrir utanríkismálanefnd þingsins í dag en sjálfur var Bolton ekki jafn yfirlýsingaglaður og áður. Hann sagði að yrði hann skipaður sendiherra myndi hann starfa náið með utanríkismálanefnd Bandaríkjaþings og báðum deildum þingsins. Bush forseti og Rice utanríkisráðherra væru staðráðin í að styrkja Sameinuðu þjóðirnar og gera þær virkari. Samtökin gæfu Bandaríkjamönnum færi á að koma stefnumálum sínum áleiðis í sameiningu. Bolton sagði enn fremur að sjaldan hefði hlutverk SÞ verið brýnna á sama tíma og samtökin leituðust við að uppfylla eigin væntingar þess efnis að forða komandi kynslóðum frá stíðsáþján og endurvekja trúna á grundvallarmannréttindi og stuðla að félagslegum framförum, betri lífskjörum og auknu frelsi. Joseph Biden, fulltrúi demókrata í utanríkismálanefnd, sagði við yfirheyrslunar að Bandaríkjamenn þyrftu sterka rödd í New York sem þekkti Sameinuðu þjóðirnar og framfylgdi stefnumálum landsins á sviði frelsis. Ekki væri þörf á rödd sem líklegt væri að fólk hlustaði ekki á. Bilden sagðist óttast, vegna þess að hann þekkti orðspor Boltons og það væri vel þekkt innan SÞ, að fólk hlustaði ekki á hann. Framar öllu þyrftu Bandaríkjamenn á góðum sendiherra að halda sem hefði hæfileika til að starfa innan veggja flókinnar alþjóðastofnunar. Bilden benti enn fremur á að, að senda Bolton til New York væri eins og að senda Nixon til Kína eða öllu heldur að senda naut inn í postulínsbúð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×