Innlent

Óskuðu eftir niðurfellingu málsins

Verjendur í Baugsmálinu svokallaða óskuðu eftir niðurfellingu málsins við þinghald í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Settur saksóknari vísaði þeim kröfum á bug og óskaði eftir efnislegri meðferð málsins og að menn hættu að karpa um formsatriði. Dómari kvað niðurstöðu um þessi atriði að vænta í næstu viku.

Verjendur Baugs óskuðu eftir að málshöfðun gegn fyrirtækinu, það er þeir átta ákæruliðir sem enn eru fyrir dóminum, yrðu látnir niður falla. Þeir tiltóku þrjár ástæður fyrir að slíkt ætti að gera: Ein væri að dómsmálaráðherra væri vanhæfur til að skipa nýjan saksóknara, önnur væri að ekki væri hægt að skipta um saksóknara eftir að málið væri höfðað og þriðja sú að enginn bær saksóknari hefði mætt fyrir rétt síðast þegar málið var tekið fyrir.

Sigurður T. Magnússon, settur saksóknari í málinu, vísaði öllum þremur ástæðum á bug og óskaði eftir því við dómara að málið yrði tekið til efnislegrar niðurstöðu og að menn hættu að deila um formsatriði.

Dómari sagði úrskurðar um þessi atriði væri að vænta í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×