Innlent

Frumvarpi frestað vegna bruna

Iðnaðarráðherra varð að draga frumvarp sitt til baka um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu á þessu þingi, vegna málþófs stjórnarandstöðu. Rætt var um frumvarpið til klukkan tvö í nótt og átti að halda umræðunni áfram klukkan tíu í morgun, en falla varð frá því þegar eldur kviknaði í rafmagnstöflu Alþingis. Formaður Vinstri - grænna segir að orkuiðnaðurinn hafi gripið í taumana. Samkomulag hefur náðst á milli flokkanna um að þinginu ljúki síðdegis á morgun.

Þingmenn sem mættu galvaskir í morgun klukkan tíu þurftu að snúa við þar sem rafmagslaust var í húsinu vegna þess að rafmagnstaflan hafði brunnið yfir.

Slökkvilið var kallað á vettvang og sögðu liðsmenn þess að talsverð hætta hefði verið á ferðum - eins og alltaf þegar rafmagnstöflur brenna yfir. Ekki urðu þó miklar skemmdir af völdum brunans í töflunni.

Þingstörf hófust síðan að nýju klukkan eitt eftir hádegi.

Þetta varð þó til þess að iðnaðarráðherra varð að draga til baka frumvarp sitt um nýtingu og rannsóknar á auðlindum í jörðu. Hún kvaðst undrast að Samfylking og Frjálslyndir skyldu halda upp málþófi um frumvarpi sem þeir hefðu upphaflega stutt.

Steingrímur Joð Sigfússon segir jákvætt að ekki verði átt frekar við virkjunarfrumvarp Valgerðar fyrir jól.

Steingrímur sagði menn hafa grínast með það á göngum þingsins í dag að orkuiðnaðurinn hefði sjálfur komið í veg fyrir að frumvarpið yrði samþykkt - og þar með brennt yfir rafmagnstöfluna.

"Það er komið að því að ljúka störfum og ætlunin að gera það á morgun," sagði Velgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra í dag. Hún sagði ljóst að beita ætti málþófi til að tefja málið og því væru aðrir kostir ekki í stöðuna en að fresta frumvarpinu. "Þetta er búið fyrir jól," bætti hún við og sagði það sæta furðu að Frjálslyndir og Samfylking skyldu nú vera á móti frumvarpi sem þeir tóku þátt í að leggja fram sjálfir fyrir nokkrum mánuðum.

"Ég vil meina það sjálf að með þessu séu stjórnarandstöðuflokkarnir að opinbera andstöðu sína við stóriðjuna, og frekari uppbyggingu hennar," sagði Valgerður sem telur að með því að vera á móti rannsóknum á jarðafli séu menn einfaldlega á móti nýtingunni.

Og það er einmitt nýtingarleyfið sem stendur í mönnum. Jóhann Ársælsson segir að þarna hafi forsendur breyst á skömmum tíma. Nú bíði fjöldi manns eftir nýtingarleyfum sem séu milljarða virði og það sé ekki sanngjarnt að einn ráðherra eigi að úthluta þeim til framtíðar.

"Við vildum að nýtingarleyfin yrðu ekki tengd rannsóknarleyfunum, eins og nú virðist vera aðalmálið," sagði Jóhann. "Ráðherra félst ekki á þetta og því var ljóst að þetta var aðalmálið hjá ráðherranum, að fá að úthluta nýtingarleyfunum."

Og meira af þinginu: Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, segir að fjárveitingar til Sundabrautar, sem kveðið er á um í frumvarpi til laga um ráðstöfun á söluandvirði Símans, væru ekki skilyrtar við svokallaða innri leið. Gert væri ráð fyrir því í frumvarpinu að innri leiðin yrði valin en það væri ekki gert að skilyrði. Önnur umræða um frumvarpið var á Alþingi nú síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×