Innlent

Sveltir sig vegna bágra kjara

Sonja á heimili sínu í dag.
Sonja á heimili sínu í dag. MYND/NFS

Tæplega sjötug kona sem er öryrki vegna geðsjúkdóms er nú í hungurverkfalli vegna kjara sinna og annarra öryrkja. Hún kveðst ekki ætla að hætta sveltinu nema kjör öryrkja og aldraðra verði gerð mannsæmandi. Sonur hennar segir baráttu öryrkja við kerfið, erfiðari en baráttu öryrkja við sjúkdóma.

Sonja Haralds er tæplega sjötug. Hún hefur verið öryrki vegna geðsjúkdóma frá árinu 1985 og segir kjör sín hafa farið stöðugt versnandi á þeim tíma. Sonja ákvað því að efna til einu mótmælanna sem hún telur sig færa til að beita sem öryrki, að fara í hungurverkfall. Það hefur nú staðið í að verða tvær vikur. Á meðan neytir hún einungis vatns eða tes. Krafa hennar er mjög skýr.

"Ég vill að ríkisstjórnin bæti öryrkjum, öldruðum og einstæðum mæðrum það sem tapast hefur frá árinu 1995," sagði Sonja.

Þarna vísar Sonja í skrif Björgvins Guðmundssonar í Fréttablaðinu í september síðastliðnum. Þar benti Björgvin á að frá því tenging á milli lágmarkslauna annars vegar og lífeyrisgreiðslna aldraðra og almannatrygginga öryrkja hins vegar, hafi verið afnumin á árinu 1995, hafi síðarnefndu hóparnir tapað stórum upphæðum.

Sonja segir hátíðirnar ekkert tilhlökkunarefni fyrir fólk í sinni stöðu. Sérstaklega ekki núna.

"Það verða engin jól í ár," segir hún.

Axel Björnsson er sonur Sonju. Hann er líka öryrki. Axel segir móður sína hafa leitað á náðir yfirvalda vegna þess að 90 þúsund krónurnar sem hún fái í bætur dugi henni hreinlega ekki. Hann segir félagsmálayfirvöld hafa tjáð henni að ekkert væri hægt að gera, framfærsla hennar væri nægjanleg samkvæmt viðmiði yfirvalda. Henni var vísað á ráðgjafarstöð um fjármál heimilanna, opinberrar stofnunar sem aðstoða á fólk í fjárhagserfiðleikum.

"Þessi stofnun komst svo að þeirri niðurstöðu, að samkvæmt þeirra viðmiði þyrfti hún 30 þúsund til viðbótar á mánuði, bara til að ná endum saman," segir Axel.

Og Axel telur móður sína ekki á leiðinni að gefast upp, þó hungurverkfall hennar sé nú komið á borð landlæknis. En þaðan fór málið frá lækni Sonju að sögn Axels.

"Ég get lofað ykkur því að hún mun ekki gefast upp fyrr en yfir líkur," segir hann. "Það er að segja að kröfum hennar verði mætt eða að hún fari hreinlega yfir móðuna miklu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×