Erlent

Óttast um smit í mönnum

Níu Tyrkir voru fluttir á sjúkrahús í gær vegna ótta um fuglaflensusmit. Þeir fengu að fara heim að rannsókn lokinni. Evrópusambandið fylgist grannt með þróun fuglaflensunnar í Tyrklandi og Rúmeníu. Á fimmtudaginn var staðfest að 1.800 alifuglar sem fundust dauðir á búgarði í héraðinu Kiziksa í norðvestanverðu Tyrklandi hefðu drepist úr fuglaflensu af H5N1-stofni. Til vonar og vara var 8.600 fuglum til viðbótar slátrað. Í gær voru svo níu manns úr nágrannahéraðinu Manisa fluttir á sjúkrahús vegna gruns um að þeir væru smitaðir af veikinni. Bráðabirgðarannsókn leiddi í ljós að það væri ólíklegt og því voru mennirnir útskrifaðir síðdegis. Frekari rannsókna er þó þörf að sögn Anatolia-fréttastofunnar. Sérfræðingar Evrópusambandsins hittust í Brussel í gær og ræddu leiðir til að draga úr líkunum á að alifuglar á smitsvæðum kæmust í tæri við villta fugla sem síðan geta dreift veirunni áfram. Utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna ætla að skjóta á neyðarfundi á þriðjudaginn um yfirvofandi flensufaraldur þegar þeir hittast í Lúxemborg til að ræða alþjóðaviðskipti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×