Erlent

Óttast að 30 þúsund hafi farist

Óttast er að meira en þrjátíu þúsund manns hafi týnt lífi í skjálftanum, sem gerir hann þann mannskæðasta í manna minnum á þessu mikla jarðskjálftasvæði. Lengi framanaf degi í gær sagði talsmaður pakistanska hersins sem stýrir björgunaraðgerðum þar, að allt að tvö þúsund manns hefðu látist í kjölfar skjálftans. Sú tala hefur fimmtánfaldast á innan við sólarhring og eru flest fórnarlömbin í pakistanska hluta Kasmírhéraðs, þar sem heilu þorpin virðast hafa jafnast við jörðu. Í héraðshöfuðborginni einni, Muzaffarabad, létust ellefu þúsund. Einnig er staðfest að hátt í sex hundruð manns hafa látist í indverska hluta Kasmír, en Afganistan virðist hafa sloppið betur og þar hafa aðeins borist fregnir af fjórum dauðsföllum. Tugþúsundir eru slasaðar og ríður nú á að bjarga þeim sem enn eru á lífi úr rústum bygginga og hlúa að þeim slösuðu. Ekki eru allir íbúarnir ánægðir með hvernig til hefur tekist með neyðaraðstoð. "Okkur tókst að koma tveimur af börnum okkar út úr húsinu, tvö önnur voru inni," sagði einn íbúi í Muzafarrad. "Ríkisstjórnin hefur engan áhuga á atkvæðum okkar. Við kveikjum í bílunum ef þeir koma hingað." Fjölmargar þjóðir hafa þegar lagt fram fé og hjálpargögn og boðið afnot af herþyrlum og öðrum búnaði. Tyrkneski Rauði hálfmáninn er þegar búinn að senda tvær vélar með hjúkrunarlið og hjálpargögn og bresk hjálparsveit er komin til starfa í Islamabad. "Við höfum 20 ára reynslu af að fást við svona hörmungar. Vonandi getum við hjálpað ykkur," sagði John Holland, í bresku alþjóðabjörgunarsveitunum. Meira að segja Indland, sem átt hefur í illdeilum við Pakistan í áratugi vegna Kasmírhéraðs, hefur boðið fram aðstoð sína. Alþjóða björgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar bauð fram krafta sína þegar í gærmorgun, en í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að stjórnvöld í Pakistan hafi ákveðið að þiggja einungis hjálp frá þeim þjóðum, sem hafi bein stjórnmálatengsl við landið. Af þessum ástæðum muni ekki verða þörf fyrir aðstoð alþjóðasveitarinnar. Áfram verður þó fylgst með aðgerðum í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og ef forsendur breytast, verður staðan endurmetin í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson hefur sent samúðarkveðjur fyrir hönd Íslendinga til forseta landanna þriggja og segist vonast til að samvinna Íslendinga og Indverja á sviði rannsókna á aðdraganda meiriháttar jarðskjálfta geti í framtíðinni dregið úr hörmungum íbúanna og hættu á mannfalli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×