Erlent

Heilt þorp sokkið í aur

Fjórtán hundruð íbúar Mayaþorpsins Panabaj í Gvatemala eru taldir af eftir að aurskriða kaffærði þorpið í tólf metra þykkri eðju á miðvikudag. Leit að lifendum er hætt og þorpið verður líklega úrskurðað ein heildar-fjöldagröf. Fellibylurinn Stan skall á Mið-Ameríku og Mexíkó í síðustu viku og þótt krafturinn væri ekki í líkingu við kraft Katrínar og Ritu sem rústuðu suðurströnd Bandaríkjanna í síðasta mánuði, þá fylgdu Stan svo miklar rigningar að jarðvegur mettaðist strax og byrjaði svo að skríða fram í hverju landinu á fætur öðru. Gvatemala hefur orðið langverst úti, en björgunarmenn hafa reynt hvað þeir geta að grafa ofaní endalausa eðjuna sem kaffærði Panabaj, með jurtir í nösunum til að reyna að útiloka lyktina sem fylgir á annað þúsund rotnandi líkum. Samkvæmt lögum í Gvatemala má einungis leita að lifendum í 72 klukkustundir eftir slys eða hamfarir, af heilbrigðisástæðum. Þorpið verður sennilega girt af og úrskurðað Mayafjöldagröf, en íbúarnir voru flestir Mayaindíánar. Hægt gengur að koma aðstoð til bágstaddra á aurflóðasvæðunum, vegir eru lokaðir og fjarskipti liggja niðri ef þau voru nokkur fyrir. Nokkurt manntjón hefur einnig orðið í El Salvador, Mexíkó, Níkaragva og Hondúras.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×