Erlent

Fá að snúa til baka

Fleiri íbúar New Orleans mega snúa aftur til borgarinnar á morgun, en margir þeirra hafa ekki að neinu að hverfa. Sum hverfi hafa hreinlega þurrkast út. Íbúar átta tiltekinna póstnúmerasvæða mega vitja heimila sinna snemma í fyrramálið. En húsin verða merkt með rauðum og grænum límmiðum. Rautt þýðir að íbúar mega skoða skemmdir og sækja eigur sínar, en ekki flytja inn aftur. Grænt merkir að fólk má flytja aftur inn ef það svo kýs. Borgarstjóri New Orleans, Ray Nagin, segir mikinn þrýsting á borgaryfirvöld að koma málum í það horf að íbúar geti snúið til baka. Hann segir þeirri vinnu hraðað eins og kostur sé, en öryggi fólks sé aðalatriði. Sum hverfi og smábæir í nágreninu hreinlega þurrkuðust út, eins og Cameron.Sjór flæddi rúma 30 km inn í landið, og eru 80% bygginga algerlega ónýtar. Dauðir nautgripir liggja eins og hráviði um allt, akrar og uppskera er ónýt. Russel Honore, yfirmaður sérsvetir hersins á svæðinu, segir enda allar opinberar byggingar, utan dómshússins, vera ónýtar. Skólar, fyrirtæki og kirkjur séu allar ónýtar. Enn á eftir að bera kennsl á tæplega 400 lík fórnarlamba Katrínar, en talið er að rúmlega ellefu hundruð manns hafi farist sökum fellibylsins, sem gerir Katrínu að þriðja mesta mannskaðaveðri í sögu Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×