Erlent

Rita kraftmeiri en Katrín

Borgarstjóri Houston, stærstu borgar Texas, gaf í gær út áskorun til íbúa borgarinnar sem búa næst sjó að koma sér í öruggt skjól innar í landi, þegar fellibylurinn Rita nálgast. Að sögn borgarstjórans, Bill White, eru borgaryfirvöld ekki fær um að sjá öllum á flóðahættusvæðunum fyrir fari og hann hvatti því vini og nágranna til að hjálpast að. Allt að ein milljón manna hafa fengið boð um að yfirgefa heimili sín enda er vindhraðinn talinn ná um 240 kílómetra hraða á klukkkustund. Rita fór hjá Flórídaskaga og Kúbu fyrr í vikunni og hefur síðan safnað í sig veðrinu yfir heitum sjó Mexíkóflóans. Vindhraði í bylnum var í gær kominn upp í meira en 220 km/klst og telst hann þar með "fjórða stigs" fellibylur og þar með jafnöflugur og fellibylurinn Katrín sem olli hamförunum í strandhéruðum Bandaríkjanna við norðanverðan Mexíkóflóa fyrir skemmstu. Íbúum Galveston, strandbæjar í Texas, og New Orleans í Louisiana var fyrirskipað að forða sér í skjól vegna hins aðsteðjandi skaðræðisstorms. Þeir sem unnið hafa að því að gera við flóðvarnargarða New Orleans keppast við að styrkja þá eins og kostur er áður en úrhellið sem fylgir Ritu skellur á borginni. Michael Chertoff, ráðherra heimavarna í bandarísku alríkisstjórninni, hvatti íbúa á hættusvæðunum til að hlýða áskorunum um að yfirgefa heimili sín. "Lærdómurinn er sá að þegar fellibylur skellur á er best að vera í skjóli fyrir tryllingi stormsins," sagði hann í morgunsjónvarpsviðtali á ABC-stöðinni. Um miðjan dag í gær var bylmiðja Ritu stödd um 420 km vestur af Key West á Flórída, yfir 1200 km aust-suð-austur af Corpus Christi í Texas, en í þá átt stefndi fellibylurinn á um 20 km hraða á klukkustund. Að mati veðurfræðinga gæti hann færst upp á land á laugardag einhvers staðar á bilinu frá Norður-Mexíkó til Louisiana, sennilegast í Texas. Chris Landsea, veðurfræðingur við fellibyljamiðstöðina í Miami, sagði að Rita gæti styrkst upp í fimmta stigs fellibyl, með vindhraða yfir 250 km/klst, er hann færist yfir heitan sjóinn í Mexíkóflóa. Sá möguleiki væri hins vegar líka fyrir hendi að það drægi úr styrk hans áður en hann gengi á land.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×