Erlent

Opnuðu Disneyland í Kína

Mikki mús hefur hafið innreið sína í Kína en Disneyland-skemmtigarður var opnaður í Hong Kong í morgun. Eigendurnir gera sér vonir um að íbúar þessa fjölmennasta ríkis heims streymi í garðinn. Það var Zeng Kinghong, varaforseti Kína, sem opnaði garðinn formlega ásamt Donald Tsang, leiðtoga Hong Kong, en viðstaddir voru bandarískir yfirmenn Disney-fyrirtækisins. Ekki eru þó allir Kínverjar jafn ánægðir með innreið Mikka mús og félaga því skömmu fyrir opnunarathöfnina hafði hópur mótmælenda úr röðum verkalýðsfélaga og mannréttindasamtaka safnast þar saman þar sem því var haldið fram að Disney-fyrirtækið væri samviskulaust og Mikki væri illur. Mótmælendurnir halda því fram að illa sé farið með verkafólk sem unnið hefur að framleiðslu ýmissa Disney-gripa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×