Erlent

Ráða í fyrsta sinn yfir landsvæði

Ísraelski herinn er farinn frá Gasaströndinni eftir 38 ára samfellda hersetu. Fimm þúsund hermenn hafa týnst burt frá svæðinu í nótt og síðasti bíllinn yfirgaf svæðið nú í morgunsárið. Þar með hafa Palestínumenn í fyrsta sinn full yfirráð yfir skilgreindu landsvæði. Þeir hafa alltaf stefnt að því að byggja algjörlega sjálfstætt ríki á Gasa, Vesturbakkanum og í austurhluta Jerúsalem, en allt eru þetta svæði sem Ísraelsmenn hertóku í sex daga stríðinu árið 1967. Þúsundir Palestínumanna fögnuðu á götum úti í morgun. Hópur þeirra réðst þegar inn í tóm samkunduhús gyðinga og kveikti þar í og braut og bramlaði allt sem fyrir varð. Ísraelsstjórn ákvað á síðustu stundu að rífa ekki húsin en þau eru í hugum margra Palestínumanna táknræn og Mahmoud Abbas, leiðtogi heimastjórnarinnar, sagði í morgun að húsin yrðu jöfnuð við jörðu. Þrátt fyrir brottfluttninginn frá Gasa óttast margir Palestínumenn að yfirráð þeirra yfir Gasa verði bara að forminu til og Ísraelsmenn muni áfram stjórna lofthelginni yfir svæðinu og eins allri umferð um svæðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×