Innlent

Íkveikja ekki útilokuð

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins stóð heldur betur í ströngu aðfaranótt sunnudags þegar eldur kom upp í atvinnuhúsnæði á tveimur stöðum í borginni. Fyrri bruninn var í verslunni Melabúðinni og sá síðari í húsnæði við Fiskislóð. Allt tiltækt lið var sent á báða staði og gott betur þar sem aukalið var kallað út þegar ljóst var að allt stefndi í stærri bruna við Fiskislóð. Tilkynning um bruna í Melabúðinni barst þegar klukkan var farin að ganga þrjú. Reyndist þá vera eldur í pappakössum sem geymdir voru í steinsteyptri geymslu undir pappakassa sem snýr út að Hofsvallagötu. Logaði glatt í pappanum, en geymslan er með sérinngangi og vel einangruð. Verslunin sjálf slapp þó við skrekkinn því þótt einhver reykur kæmist þangað inn var hún laus við allt sót. Að sögn Friðriks Ármanns Guðmundssonar, verslunarstjóra Melabúðarinnar, urðu engar skemmdir á vörum og verslunin var opnuð á hádegi eins og venjan er á sunnudögum. "Þetta fór miklu betur en á horfðist. Við erum með mjög gott öryggiskerfi og góða nágranna sem ganga seint til náða um helgar, sem bjargaði því sem bjargað varð." Eldurinn í Melabúðinni var slökknaður um klukkan hálf fjögur og ekki nema þremur tímum síðar var tilkynnt um bruna við Fiskislóð. Þegar slökkviliðið kom á vettvang skíðlogaði í bíl sem var inni í húsinu og timburstæðum sem voru við hliðina á bílnum. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og slökkviliði á vakt tókst ásamt aukaliði að ráða niðurlögum hans á innan við klukkustund. Húsnæðið var allt að því tómt með hálfreistum veggjum og milliloftum svo fátt var þar inni sem gat brunnið. Því má segja að skemmdir vegna brunans hefðu hæglega getað orðið meiri. Lögreglan vildi sem minnst segja um upptök eldsvoðanna tveggja nema að ekkert væri búið að útiloka í þeim efnum. Þó má segja að harla ólíklegt sé að eldurinn í Melabúðinni hafi kviknað af sjálfu sér þar sem í geymslunni sem eldurinn kom upp í voru aðallega pappakassar og allar raflagnir vel einangraðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×