Innlent

Forsetinn hafnar menningarhúsi

"Við höfum séð þessar hugmyndir og tillögur en nálægðin við forsetabústaðinn gerir það að verkum að ráðuneytið hefur ekki getað sætt sig við þær," segir Halldór Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, um tillögur áhugahóps á Álftanesi um byggingu menningarhúss í grennd við Bessastaði. Áhugahópurinn lagði fram tillögur um að reist yrði menningarhús vestan við Bessastaði og leitaði sveitarfélagið eftir umsögn forsetaembættisins og forsætisráðuneytisins. Niðurstaðan varð sú að vegna öryggissjónarmiða og nálægðar við Bessastaði væri ekki unnt að byggja menningarhúsið á þessum stað. Guðmundur G. Gunnarsson, bæjarstjóri á Álftanesi, segir að reynt verði að finna menningarhúsinu annan stað. Niðurstaðan hafi hins vegar ekki komið honum á óvart. "Mér brá ekki og skil afstöðuna vel. Við verðum að lifa í sátt og samlyndi við forsetabústaðinn og því verðum við að taka þessu," segir hann. Stefán Lárus Stefánsson forsetaritari segir að embættinu hafi fundist byggingin of stór og áberandi. "Það var hin efnislega niðurstaða okkar en öryggismál skipta einnig miklu máli," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×