Innlent

30 þúsund á hápunkti Ljósanætur

Talið er að þrjátíu þúsund manns hafi verið á hápunkti Ljósanætur í Reykjanesbæ í gærkvöldi en þá voru ljósin í aðalhlutverki, bæði á Keflavíkurbjargi og þau sem lýstu upp himininn. Ljósanæturhátíðin var nú haldin í sjötta sinn í Reykjanesbæ en upphafið að henni var uppsetning á lýsingu Keflavíkurbjargs. Hátíðin stendur yfir í fjóra daga en hápunktur hennar var í gær. Dagskrárliðir hátíðarinnar voru nær 200 talsins í tónlist, myndlist og afþreyingu. Meðal atriða er stjörnuspor Reykjanesbæjar a la Hollywood. Í þetta sinn voru dægurlagasystkinin Ellý og Vilhjálmur Vilhjálmsbörn heiðruð en stjörnuspor þeirra var afhjúpað fyrir framan veitingahúsið Ránna í Keflavík. Nú var í fyrsta sinn veitt gestastjörnuspor og það var enginn annar en sjálfur Clint Eastwood sem það fékk en koparhella með undirskrift Óskarsverðlaunahafans er staðsett fyrir framan Sambíóin í Keflavík. Gríðarlegur mannfjöldi fylgdist með þessum viðburðum. Meðal stórra atriða í gær var val á Ljósalagi Reykjanesbæjar 2005 og stóð valið á milli þriggja laga. Í stíl við stjörnufans Ljósanætur var það Idol-stjarnan Davíð Smári sem stóð uppi með besta lagið í ár, Haustnótt í Keflavík, lag Halldórs Guðjónssonar við texta Keflavíkurskáldsins Þorsteins Eggertssonar. Steinþór Jónsson, formaður ljósanefndar var að vonum ánægður með hvernig gekk en hann var sérstaklega ánægður með bréf frá Clint Eastwood. Það hefði borist í gær og þar hefði hann þakkað þann heiður sem honum hefði verið sýndur með stjörnusporinu. Það hefði verið mjög gaman að hann hefði séð sér fært að senda kveðjuna. Þrátt fyrir þennan mikla mannfjölda á Ljósanótt var lögreglan mjög ánægð með hvernig til tókst. Óhöpp voru fá og ef áfengi sást á unglingum var tafarlaust haft samband við foreldra þeirra og þeir beðnir um að sækja þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×