Sport

Teitur að taka við KR-liðinu?

Forráðamenn KR hafa samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fréttablaðsins rætt við Teit Þórðarson um að hann taki við þjálfun liðsins fyrir næsta sumar. Eins og flestum ætti að vera kunnugt er Sigursteinn Gíslason núverandi þjálfari liðsins eftir að hafa tekið við af brottviknum Magnúsi Gylfasyni en svo virðist sem forráðamenn KR sjái Sigurstein ekki fyrir sér sem endanlegan arftaka Magnúsar. Teitur er nú á öðru ári sínu sem knattspyrnustjóri hjá Ull-Kisa í norsku 2. deildinni, en samningur hans við félagið rennur út um áramótin. Í samtali við Fréttablaðið í gær kvaðst Teitur hafa fengið nokkrar fyrirspurnir frá öðrum félögum en ekkert væri fast í hendi enn sem komið er. Spurður um hvort KR væri eitt þessara félaga vildi Teitur hvorki játa né neita. "Ég held að ég sé ekkert að segja um þetta mál í augnablikinu," sagði hann. Teitur viðurkenndi hins vegar að hann væri að skoða sín mál og gæti vel hugsað sér til hreyfings. "Á meðan ég hef ekki ákveðið neitt er ég opinn fyrir öllu, þar á meðal að koma til Íslands. Ég útiloka ekki neitt," sagði Teitur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×