Sport

Freistandi að ná upp í 100 mörk

„Það kom mér á óvart hvað það var lítil barátta í Grindavíkurliðinu en við spiluðum vel og hefðu leikmenn nýtt færin hefði leikurinn farið svona 10-3. Það er mikill stígandi í okkar leik og nú þegar allir virðast heilir þá gengur þetta ansi vel," sagði Steingrímur en hann skoraði 49 af þessum mörkum í Eyjum með ÍBV en eitt fyrir Fylki gegn ÍBV. Hann hefur alls skorað 80 deildarmörk. Sigurinn var ansi mikilvægur fyrir Eyjamenn sem komust úr fallsæti. „Það er meira fjör þarna í botnbaráttunni en á toppi deildarinnar þar sem mótið er nánast ónýtt! Ég man þegar ég var að byrja með meistaraflokki að þá fengum við utanlandsferðir fyrir að bjarga okkur frá falli en svo urðum við meistarar 1997 og fengum ekkert. Það er meira í húfi á botninum," sagði Steingrímur sem er orðinn 32 ára og hefur ekki getað spilað af fullum krafti undanfarin ár vegna meiðsla. „Það hefur verið mjög þreytandi að geta ekki spilað. Fyrst maður er kominn með 80 mörk þá er freistandi að reyna að ná upp í 100 en það verður sífellt erfiðara eftir því sem aldurinn færist yfir mann og maður missir svona mikið úr. Maður hefur verið að íhuga hvort það sé ekki að koma tími til að fara að segja þetta gott." Steingrímur segist ekki vera neitt stressaður þótt lið hans sé í harðri botnbaráttu. „Sumum finnst ég vera full rólegur en ég er ekkert að stressa mig. Það mikill kostur fyrir okkur að leika þessa sex stiga leiki á heimavelli og næsti leikur verður gegn Þrótti á sunnudag sem er ekki síður mikilvægur leikur. Okkar heimavöllur er án nokkurs vafa besti völlur landsins og það er frábært að spila þar," sagði Steingrímur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×