Innlent

Orustan við Iwo Jima

Kvikmyndin sem Clint Eastwood er að gera hér á landi fjallar um einhverja blóðugustu orrustu seinni heimsstyrjaldarinnar á Kyrrahafsvígstöðvunum, þegar Bandaríkjamenn gerðu innrás á eyna Iwo Jima. Og nú er kempan komin til Íslands, til þess að gera sína næstu stórmynd. Iwo Jima er lítil eldfjallaeyja á Kyrrahafi um eittþúsund kílómetra suðaustur af Tokyo. Þar var háð ein mannskæðasta og grimmasta orrusta Kyrrahafsstríðsins, og þar var tekin ein frægasta stríðsljósmynd sem um getur. Á eynni var mikilvægur flugvöllur sem Bandaríkjamenn vildu ná á sitt vald, því þaðan gátu B-29 sprengjuflugvélar gert loftárásir á meginlandið. Sjötíu þúsund bandarískir landgönguliðar tóku þátt í innrásinni en til varnar voru tuttugu og sjö þúsund japanskir hermenn. Þeir voru hinsvegar vel víggirtir og vel vopnaðir, og það er þumalfingursregla að árásarlið þarf að vera þrisvar sinnum fjölmennara en varnarlið, til þess að hafa sigur. Japönsku hermennirnir börðust eins og ljón og þegar orrustunni lauk lágu yfir tuttugu þúsund þeirra í valnum. Tæplega sjöþúsund bandarískir hermenn féllu og rúmlega nítján þúsund særðust. Það má því búast við talsverðum hamagangi í Krísuvík þegar innrásin er endurtekin þar, undir stjórn Clints Eastwood.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×