Innlent

Verður 2110 m í skólabókum

Íslensk grunnskólabörn munu læra að Hvannadalshnjúkur sé 2110 metra hár, frá og með næsta hausti. Niðurstaða mælinga Landmælinga Íslands er nokkuð ótvíræð og nú þarf líklega að fara að breyta öllum kortum og textum í alfræðiritum þótt mörgum sé það þvert um geð. En hvað með gömlu, góðu landafræðina? Tryggvi Jakobsson, forsjtóri Námsgagnastofnunar Íslands, segir að menn haldi sig við það sem best sé vitað á hverjum tíma. Fram að þessu hafi Hvannadalshnjúkur verið 2119 metrar en verið sé að ganga frá handriti að nýju landafræðiefni fyrir grunnskóla um Ísland og þar verði hin nýja tala sett inn. Á næsta ári komi svo væntanlega ný útgáfa af kortabók fyrir skólana og þar verði hin nýja tala einnig. Aðspurður hversu mikið þurfi almennt til til að námsefni sé breytt segir Tryggvi að þegar gefin sé út opinber yfirlýsing eins og í þessu tilviki hljóti að þurfa að taka mið af því og sem opinberri stofnun beri Námsgagnastofnun að fara eftir því sem opinberlega er tilkynnt. Þetta sé þó oft mikið matsatriði. Hann minnist þess þegar mest gekk á í Austur-Evrópu og hún að liðast í sundur. Á þeim tíma hafi stofnunin þurft að fresta útgáfu á efni um Evrópu ítrekað vegna hraðfara breytinga sem urðu á ríkjaskipan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×