Sport

Guðmundur Steinars æfir með OB

Guðmundur Steinarsson, sóknarmaður Keflavíkur í Landsbankadeild karla í knattspyrnu er nú staddur í Danmörku þar sem hann er á reynslu hjá OB í Óðinsvéum. Vefur Víkurfétta greindi frá þessu í dag en þar segir ennfremur að Guðmundur sé væntanlegur aftur til landsins á morgun og verði til í slaginn með Keflavík þegar liðið mætir Þrótti í deildinni á sunnudag. Guðmundur hefur staðið sig vel í framlínu Keflvíkinga í sumar og gert 5 mörk í Landsbankadeildinni í 12 leikjum en Keflavík er sem stendur í 3. sæti deildarinnar. Guðmundur er ekki ókunnugur Danmörku þar sem hann lék með Brönshoj í dönsku 1. deildinni árið 2003 og gerði hann nokkur mörk þar ytra. Hann kom svo heim um sumarið og gekk í raðir Fram en náði sér ekki á strik fór aftur til Brönshoj. OB er í fimmta sæti dönsku deildarinnar sem er nýhafin, aðeins 3 umferðir búnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×