Erlent

Söguleg viðgerð í geimnum

Geimfararnir í geimferjunni Discovery undirbjuggu í gær sögulegan viðgerðarleiðangur sem fer fram í dag. Stephen Robinson, einn geimfaranna fer undir geimferjuna til viðgerða, en slíkt hefur ekki verið gert áður. Reyna á að fjarlægja stykki sem skaga framan úr hitahlíf á ferjunni. Ef stykkin verða ekki fjarlægð segja sérfræðingar NASA að mikil hætta sé á ofhitnun þegar geimferjan kemur aftur inn í lofthjúp jarðar. Slík ofhitnun gæti leitt til þess að Discovery springi í loft upp, líkt og geimferjan Columbia gerði. Robinson verður komið fyrir á tæplega átján metra armi, sem félagar hans stjórna innan úr geimferjunni, og færa þannig Robinson að þeim stað undir geimferjunni sem þarf að laga. Þar reynir hann að losa þau stykki sem standa út úr með handafli. Ef það virkar ekki þarf hann að nota sög sem búin var til í geimstöðinni til að saga stykkin af. Sögin var búin til úr sagarblaði, blastböndum, einangrunarlímbandi, Velcro og öðrum hlutum sem voru til taks í geimstöðinni. Á blaðamannafundi í gær sagði Robinson að þetta væri mjög vandmeðfarið verkefni, en hann treysti sér til að leysa það. Ef þessar aðferðir virka ekki, verða höfuð væntanlega lögð í bleyti og aðrar tilraunir til viðgerða gerðar á fimmtudag eða föstudag. Hlé var gert á undirbúningi leiðangursins til að ræða við George Bush, forseta Bandaríkjanna, í síma. Þar þakkaði Bush geimförunum fyrir að taka áhættu í þágu rannsókna. "Augljóslega, þegar þið undirbúið að snúa aftur, biðja margir Bandaríkjamenn fyrir öruggri heimkomu ykkar," bætti Bush við. Eileen Collins, sem fer fyrir áhöfn Discovery, svaraði því til að hún og áhöfnin öll trúðu sterklega á geimleiðangra og rannsóknir á hvað væri að finna í geimnum, og að "þau skref sem við tökum nú eru því þess virði og við viljum að allir viti það". Discovery verður við geimstöðina fram á laugardag og áætlað er að geimferjan snúi aftur til jarðar á mánudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×