Sport

Valur gefur FH ekkert eftir

Valsmenn héldu sigurgöngu sinni á heimavelli áfram í gær, en baráttuglatt lið Vals vann Fylki með þremur mörk gegn einu, í skemmtilegum leik að Hlíðarenda. Valsmenn minnkuðu forskot FH-inga í sex stig með 3-1 sigri á Fylki og náðu um leið 8 stiga forskoti á liðið í 3.sæti. Fylkismenn töpuðu fyrsta útileik sumarsins. Leikurinn fór fjörlega af stað og áttu bæði lið ágætis sóknir á upphafsmínútunum. Fylkir komst nálægt því að komast yfir þegar Kjartan Sturluson varði vel í tvígang, eftir aukaspyrnu Guðna Rúnars. Valsmenn vöknuðu við þetta og náðu góðum sóknum, sérstaklega upp hægri kantinn þar sem Matthías og Steinþór náðu ágætlega saman. Þegar líða tók á fyrri hálfleikinn var Valsliðið sterkara, þó sóknir Fylkismanna hafi oft á tíðum skapað hættu upp við marka Valsmanna. Mikil barátta var einkennandi fyrir leikmenn beggja liða og áttu miðjumenn erfitt með að taka boltann niður og láta hann ganga milli manna, þar sem leikmenn gáfu ekkert eftir. Á þrítugusta og fimmtu mínútu fengu Valsmenn hornspyrnu, en þeir voru búnir að vera með undirtökin mínúturnar á undan. Eftir ágæta sendingu Guðmundar Benediktssonar tókst Garðari Gunnlaugssyni að skalla boltann í netið. Hans ellefta mark í deild og bikarkeppni í sumar. Eftir markið voru Valsmenn miklu sterkari og hefðu hæglega getað bætt við marki. Barátta hefur verið aðalsmerki Valsmanna á heimavelli í sumar og er oft gaman að fylgjast með hversu samstíga þeir eru, sérstaklega í varnarleiknum. Valur hóf seinni hálfleikinn eins og oft áður í sumar, með mikilli pressu og uppskáru mark strax í upphafi, en það gerði Atli Sveinn eftir hornspyrnu Guðmundar Benediktssonar. Eftir þetta var róðurinn orðinn þungur hjá Fylki. Leikmenn liðsins voru óþolinmóðir og héldu boltanum illa innan liðsins, en það hefur stundum verið þeirra styrkleiki í sumar. Dugnaðurinn í miðjumönnum Vals, og þá sérstaklega í Stefáni Helga, gerði leikmönnum Fylkis erfitt fyrir og urðu þeir oftar en ekki að reyna langar sendingar fram á við. Á sextugustu og fjórðu mínútu tókst Björgólfi Takefusa að minnka muninn fyrir Fylki úr vítaspyrnu, en hún kom eftir að Peter Tranberg féll fimlega í teignum. Eftir markið sóttu Fylkismenn í sig í veðrið og pressuðu stíft á Valsvörnina. Sérstaklega gekk þeim vel að finna Björgólf, sem var oft skeinuhættur í sókninni. Fylkir var sterkara liðið mínúturnar eftir að Björgólfur minnkaði munninn, en Valsmenn náðu þó að vinna sig inn í leikinn aftur með skynsömum leik. Á áttugustu mínútu tókst Valsmönnum að bæta við þriðja markinu, eftir skelfileg mistök Helga Vals Daníelssonar í vörn Fylkis. Sigþór Júlíusson stal boltanum af Helga Val, sem var alltof lengi með boltann, og lagði hann laglega framhjá Bjarna Þórði Halldórssyni markmanni Fylkis. Stefán Helgi Jónsson átti góðan leik á miðjunni hjá Val, og stoppaði ófáar sóknirnar. "Við náum yfirleitt að spila vel á heimavelli. Við erum þéttir í vörninni og náðum að brjóta niður sóknirnar hjá Fylki hátt á vellinum og það gefur okkur færi á hröðum og góðum sóknum. Vonandi höldum við þessari spilamennsku áfram," sagði Stefán Helgi í leikslok. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×