Sport

Gerðist síðast fyrir sjö árum

Þróttarar hafa náð í fjögur stig í fyrstu tveimur leikjunum undir stjórn Atla Eðvaldssonar og það þrátt fyrir að hafa aðeins skorað eitt mark í þeim. Lykillinn að stigasöfnun liðsins liggur fyrst og fremst í bættum varnarleik liðsins en það hefur haldið hreinu í báðum leikjunum, fyrst í 0-0 markalausu jafntefli við Skagamenn og svo í 1-0 sigri á Fylkismönnum uppi í Árbæ. Atli hefur lagt áherslu á að bæta vörnina og það hefur þegar skilað sér enda fékk Þróttur 17 mörk á sig í fyrstu 9 leikjum tímabilsins og náði aðeins að halda einu sinni hreinu í fyrri umferðinni - í 4-0 sigri á ÍBV. Atli byrjaði strax á því að breyta leikkerfinu úr 3-5-2 í 4-4-2 og færði fyrirliðann Pál Einarsson aftur í miðja vörnina. Þetta tvennt hefur gefist mjög vel og hefur Páll verið einn allra besti leikmaður liðsins í þessum tveimur leikjum. Það þarf að fara heil sjö ár aftur í tímann til að finna tvo leiki í röð sem Þróttarar spiluðu án þess að fá á sig mark í efstu deild. Síðan hefur Þróttur aðeins haldið hreinu í 4 leikjum í efstu deild (1998, 2003 og 2005). Það var um mánaðamótin maí og júní 1998, í 3. og 4. umferð, þegar Þróttarar héldu hreinu í tveim leikjum í röð. Fyrst í markalausu jafntefli gegn Fram í Laugardalnum og svo í 1-0 sigri á útivelli gegn Grindavík. Páll Einarsson lék í vörninni í fyrri leiknum í forföllum Kristjáns Jónssonar sem var þá í leikbanni og skoraði síðan sigurmarkið í seinni leiknum. Þá var hann aftur kominn á miðjuna þar sem hann hefur spilað nánast samfellt síðan þá eða þar til Atli tók við. Nú stjórnar Páll hins vegar varnarleiknum með glæsibrag. Næstir til þess að reyna finna leiðir í Þróttaramarkið verða Framarar en nágrannarnir mætast á sunnudaginn kemur í einum af úrslitaleikjum fallbaráttu Landsbankadeildarinnar í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×