Sport

Óli Stefan vill burt frá Grindavík

„Það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast til að ég verði áfram í Grindavík,“ sagði knattspyrnumaðurinn Óli Stefán Flóventsson í samtali við íþróttadeildina í morgun. Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindvíkinga, setti Óla Stefán út úr liðinu eftir meint agabrot leikmannsins. „Ákvörðun þjálfarans var dropinn sem fyllti mælinn. Samskipti okkar hafa verið stirð í langan tíma,“ sagði Óli Stefán ennfremur. Hann segist hafa talað við Jankovic á föstudag til að reyna að slíðra sverðin en eftir fundinn hafi það verið algerlega ljóst að þeir ættu ekki skap saman. Óli Stefán ræðir við stjórn knattspyrnudeildar Grindavíkur í dag en hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið síðastliðið haust. Hann segist ekki vera hættur í fótbolta og langar að spila áfram í efstu deild. Framarar sýndi honum mikinn áhuga síðastliðið haust og ekki óhugsandi að Óli Stefán fari í Safamýrina. Hann verður þrítugur síðar á árinu, á að baki 156 leiki með Grindavík í efstu deild og hefur skorað 27 mörk.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×