Sport

Stefán byrjar inn á í fyrsta sinn

Stefán Gíslason verður í fyrsta skipti í byrjunarliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu þegar við mætum Ungverjum í undankeppni heimsmeistaramótsins á Laugardalsvelli í dag. Byrjunarliðið er þannig skipað: Árni Gautur Arason stendur á milli stanganna. Bakverðir eru Kristján Örn Sigurðsson og Indriði Sigurðsson, miðverðir Ólafur Örn Bjarnason og Pétur Marteinsson, Brynjar Björn Gunnarsson og Stefán Gíslason eru inni á miðjunni, Grétar Rafn Steinsson og Arnar Þór Viðarsson á köntunum og Gylfi Einarsson fyrir aftan Eið Smára Guðjohnsen fyrirliða. Þetta er leikaðferðin 4-2-3-1 en liðið er nokkuð breytt frá undanförnum landsleikjum. Hermann Hreiðarsson er meiddur, Heiðar Helguson er í leikbanni og Jóhannes Karl Guðjónsson gefur ekki kost á sér. Ungverjar unnu okkur í fyrri leiknum, 3-2, í Búdapest. Þeir eru með sjö stig í riðlinum eftir fimm umferðir en við höfum aðeins eitt stig eftir jafntefli gegn Möltu á útivelli en við leikum gegn þeim á miðvikudag. Flautað verður til leiks á Laugardalsvellinum klukkan 18.05. Þeir sem komast ekki á völlinn geta fylgst með boltavaktinni á Vísi.is. Króatar eru efstir í riðlinum með 13 stig en þeir mæta Búlgörum á útivelli. Svíar eru stigi á eftir í öðru sæti og taka á móti Möltumönnum í dag. 21 leikur er í undankeppni heimsmeistaramótsins í dag og í kvöld í Evrópuriðlunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×