Sport

Heidfeld á ráspól

Ökumenn Williams-liðsins voru í fantaformi þegar tímatakan fyrir kappaksturinn á Nurburgring fór fram í gær. Hraðast allra ók Nick Heidfeld og hann verður því á ráspól í fyrsta skipti á ferlinum í dag.Raikkonen keyrði aðeins hægar en Heidfeld og Íslandsvinurinn Mark Webber var með þriðja besta tímann. Michael Schumacher var í tómu tjóni í tímatökunni og hann er tíundi í rásröðinni. Félagi hans, Rubens Barrichello, er fyrir framan hann og er ljóst að Schumacher mun eiga erfitt uppdráttar í keppninni í dag en hann hefur ekki verið líkur sjálfum sér síðustu vikur. Þær breytingar áttu sér stað í gær að aðeins fór fram ein tímataka í stað tveggja en það fyrirkomulag hefur verið lagt af og ekki degi of seint að mati margra. „Þetta er frábær tilfinning enda er ég búinn að vera lengi í þessum bransa og það hlaut að koma að því að ég kæmist á ráspól," sagði Heidfeld skælbrosandi. „Af öllum stöðum þá er þetta brautin þar sem ég vildi allra mest komast á ráspól. Hér er mitt heimafólk og þetta hefur verið frábær dagur. Annars koma þessi úrslit mér á óvart en við Webber áttum von á meiri samkeppni hér í dag." Kimi Raikkonen hefur unnið síðustu tvær keppnir og hann ætlar að fullkomna þrennuna í dag. Hann leit vel út í tímatökunni í gær og er svo sannarlega til alls líklegur í keppni dagsins enda með sjálfstraustið í sögulegu hámarki. Fernando Alonso virðist síðan aðeins vera að gefa eftir en hann varð að sætta sig við sjötta besta tímann í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×