Sport

FH-ingar í góðra liða hóp

FH-ingar eru sjöunda liðið í sögu tíu liða efstu deildar sem hefur fullt hús og sex mörk eða meira í plús eftir fyrstu tvær umferðir Íslandsmótsins. FH-ingar hafa byrjað Landsbankadeild karla með sannfærandi hætti í sumar. Hafnfirðingar hafa unnið báða leiki sína á útivelli og hafa fullt hús stiga og markatöluna 8-1 úr fyrstu tveimur leikjum sínum, sem báðir fóru fram á Suðurnesjum. Það má búast við því að hinum níu liðunum í deildinni sé ekki farið að lítast á blikuna enda eru nokkrir í leikmannahópi FH sem myndu labba inn í lykilhlutverk hjá flestum liðum deildarinnar en eru stundum jafnvel ekki í 16 manna hópi FH á leikdegi. FH-ingar eru sjöunda liðið í sögu tíu liða efstu deildar sem hefur náð slíkri draumabyrjun og öll hin sex hafa unnið titil á því tímabili. Fimm af þessum sex liðum hafa enn fremur orðið Íslandsmeistarar um haustið og tvö þeirra unnu tvöfalt á tímabilinu sem þau byrjuðu svona vel. Meðal þessarra liða eru Valsmenn frá 1978, sem töpuðu ekki deildarleik á tímabilinu, tvöfaldir meistarara Skagamanna sem unnu 20 leiki af 22 í deild og bikar og skoruðu 62 deildarmörk í 18 leikjum sumarið 1993 og svo Skagaliðið sem vann tvöfalt sumarið 1996. Hin þrjú liðin eru Íslandsmeistarar Valsmanna 1980, Íslandsmeistarar Framara 1990 og svo bikarmeistarar KR-inga 1994. Aðeins eitt þessara liða lék báða leiki sína á útivelli líkt og FH-liðið nú en KR-ingar byrjuðu Íslandsmótið 1994 með tveimur leikjum á útivelli, unnu 5-0 sigur á Breiðabliki á Kópavogsvelli í 1. umferð og sóttu síðan 2-0 sigur í Garðabæ þremur dögum síðar. James Bett, faðir Baldurs Bett, núverandi leikmanns FH, lék einmitt með KR-liðinu þetta sumar og skoraði meðal annars tvö mörk í fyrsta leiknum. Baldur kom inn á sem varamaður í Grindavík og skoraði þá fimmta og síðasta mark FH-liðsins í leiknum. KR-ingar unnu reyndar aðeins einn af næstu átta leikjum og enduðu í fimmta sætinu um haustið en öll hin liðin tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn. Þetta er líka í fyrsta sinn síðan 1990 sem lið sem nær svona frábærri byrjun á Íslandsmótinu er ekki undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar,  en ÍA 1993, KR 1994 og ÍA 1996 voru öll undir hans stjórn. Ásgeir Elíasson var því síðastur á undan Guðjóni að taka Íslandsmótið með trompi í fyrstu tveimur umferðunum en Fram vann báða fyrstu leiki sína sumarið 1990, 4-0. Næst á dagskrá hjá FH er fyrsti heimaleikur sumarsins þegar Eyjamenn koma í heimsókn í Kaplakrikann en aðeins þrjú af umræddum sex liðum unnu þrjá fyrstu leiki tímabilsins; Valur 1978 og 1980 og ÍA 1993.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×