Sport

Enginn nýliðabragur á Valsmönnum

Valsmenn undirstrikuðu í gærkvöld gegn Skagamönnum að þeir ætla sér að  berjast á toppnum í sumar. Þá unnu þeir sanngjarnan sigur, 2-0, og eru því  jafnir að stigum við FH og KR.  Fyrri hálfleikur byrjaði með miklum látum en Hjörtur Hjartarson fékk  dauðafæri strax á fyrstu mínútu og hann var klaufi að skora ekki. Skagamenn  voru mikið mun frískari og það var nokkuð gegn gangi leiksins þegar Garðar  Gunnlaugsson kom heimamönnum yfir á 8. mínútu. Hann fékk þá frábæra sendingu  frá Guðmundi Benediktssyni, lék fram hjá Páli Gísla í markinu og lagði  boltann auðveldlega í netið. Vel gert. Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og fátt  markvert sem gerðist. Síðari hálfleikur var ívið skemmtilegri og líflegri. Bæði lið sóttu strax af  krafti en sóknar heimamanna voru alltaf markvissari og hættulegri. Þeir  uppskáru síðan annað mark þegar Reynir Leósson braut á Garðari  Gunnlaugssyni. Dómur sem þjálfari ÍA, Ólafur Þórðarson, var ósáttur við.  "Þetta var ekki víti fyrir fimmaura og þessi dómur eyðilagði leikinn," sagði  Ólafur. Skagamennn náðu aldrei að ógna marki Vals að neinu viti eftir þetta og  Valsmenn fögnuðu sanngjörnum sigri. Varnarleikur liðsins var frábær,  miðjuspilið traust og Garðar Gunnlaugsson sýndi að hann getur vel staðið  undir væntingum frammi en hann lék mjög vel í gær. Sóknarleikur Skagamanna  var bitlaus með öllu og það felldi liðið. Varnarleikur liðsins hefur þar að  auki oft litið betur út. Þetta ÍA-lið virkar ekki sannfærandi og þarf að  bæta sig mikið ef þeir ætla að fá eitthvað úr sumrinu. "Þetta var fín frammistaða og mikill baráttuleikur. Við reyndum að spila  boltanum og það tókst ágætlega á köflum og við sköpuðum okkur þokkaleg  færi," sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals, en hann var ánægður með  Garðar. "Hann spilaði eins og engill í dag og lét finna fyrir sér. Ég er  verulega sáttur með hans lek" Ólafur Þórðarson sagði að sínir menn hefðu verið betri í leiknum. "Við áttum fínar sóknir og áttum meira í fyrri hálfleik. Ég er þokkalega  sáttur en við áttum að gera betur," sagði Ólafur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×