Sport

Leikmaður frá Arsenal til reynslu

Í gær kom til landsins leikmaður sem heitir Issa Abdulkadir og verður hann til reynslu hjá Keflvíkingum næstu daga. Hann er fæddur í desember 1986 og er því 18 ára gamall. Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, segir að þessi leikmaður sé varnarmaður en geti þó einnig nýst á miðjunni í íslensku deildinni.  ,,Hann verður hjá okkur til 1. júní og ætlum við að reyna að fá leikheimild fyrir hann svo hann geti leikið þá tvo leiki sem við eigum þangað til. Eftir það munum við taka ákvörðun í samráði hvort hann verði áfram hjá okkur. Ég hafði samband í gegnum minn tengilið við Arsenal og spurði hvort það væru einhverjir leikmenn sem við gætum fengið og okkur var bent á þennan," sagði Kristján. Þeir hjá Arsenal bera Abdulkadir vel söguna að sögn Kristjáns og voru þeir mjög tvístígandi í því hvort þeir ættu að losa hann. Á endanum var tekin sú ákvörðun að láta hann fara en hann mætti á sína fyrstu æfingu í Keflavík í gærkvöld. Hann er upphaflega frá Sómalíu en hefur verið í herbúðum Arsenal frá 11 ára aldri og er breskur ríkisborgari. Ekki er ólíklegt að fleiri erlendir leikmenn komi til reynslu hjá Keflavík á næstunni en liðið varð fyrir gríðarlegu áfalli þegar einn af lykilmönnunum, Ingvi Rafn Guðmundsson, tvífótbrotnaði og leikur ekki meira með á tímabilinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×