Sport

Hugsar ekki um markametið

"Já, ég fann mig ágætlega og nýtti færin," sagði Tryggvi Guðmundsson, hógværðin uppmáluð í samtalið við Fréttablaðið eftir að hafa skorað þrennu gegn Grindvíkingum í Landsbankadeildinni í gær. Tryggvi hefur heldur betur stimplað sig inn í mótið í ár, er kominn með fjögur mörk í fyrstu tveimur leikjunum og þau þrjú sem komu í gær voru hvert öðru glæsilegra. "Boltinn fór nákvæmlega þangað sem hann átti að fara," sagði Tryggvi um fyrsta markið sem kom beint úr aukaspyrnu af 25 metra færi. Annað markið skoraði Tryggvi með góðu skoti úr teignum en það þriðja með glæsilegri vippu sem kom með hægri fæti í þokkabót. "Já, hægri löppinn er að gera það gott þessa dagana," sagði Tryggvi en hann skoraði einmitt með hægri löppinni í fyrstu umferðinni gegn Keflavík. Aðspurður um hvort markametið væri í hættu sagði Tryggvi að hann héldi að svo væri ekki. "Ég á náttúrulega metið ásamt öðrum og það er virkilega gaman. En ég er ekkert að hugsa um þetta met. Ég sagði nú í gríni fyrir tímabilið að ég ætlaði að skora 28 mörk en ég meinti lítið með því. En þetta byrjar vel," segir Tryggvi. Hann hefur nú skorað í átta leikjum í röð í efstu deild á Íslandi, en hann endaði síðasta tímabil sem hann lék hér á landi árið 1997, þá með Eyjamönnum, með því að skora í síðustu sex umferðunum. Nú hefur hann skorað í fyrstu tveimur umferðunum og nálgast hann óðfluga met Arnars Gunnlaugssonar sem skoraði í 11 leikjum í röð á sínum tíma með ÍA. "Þetta er annað met sem ég hugsa ekkert um. Ég vill bara að FH-liðinu gangi sem best."Tryggvi er að vonum sáttur með byrjun FH-inga á Íslandsmótinu. "Það var mjög erfitt að spila í þessum vindi en við náum að skora fimm mörk og sínum að það er virkilega mikill hæfileiki í þessu liði," segir Tryggvi. Hann kveðst ekki viss um hvort þetta FH-lið sé það sterkasta sem hann hafi spilað með hér á landi. "Eyjaliðið 1997 var nú fínt og mjög vel spilandi. Það er mjög erfitt að bera þetta saman en það er ljóst að ég er hluti af mjög öflugri liðsheild hér hjá FH í dag."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×