Sport

Baráttusigur KR-inga í rokinu

"Þetta var mikill rokleikur og við erum mjög sáttir við að hafa fengið stigin þrjú," sagði Magnús Gylfason að loknum leik KR og Fram í Frostaskjólinu í gær. Aðstæður voru varla boðlegar, ískalt og mjög hvasst. Völlurinn var greinilega harður og rann boltinn illa á honum. Leikurinn var, miðað við þetta, alls ekki slæmur. KR-ingar voru mun betri en gegn Fylki í 1. umferðinni og Framarar voru að leika fína knattspyrnu. Grétar Ólafur Hjartarson lék sinn fyrsta leik fyrir KR en Kim Nörholt var ekki í leikmannahópi Fram. Grétar átti einmitt fyrsta færi leiksins er hann skýtur yfir mark Framara á 3. mínútu. Arnar Gunnlaugsson gerði hið sama síðar í leiknum og fóru reyndar framherjarnir báðir illa með færin sín í leiknum öllum.Um var að ræða varnarsigur KR, fyrst og fremst. Veikasti hlekkurinn, Gunnar Einarsson, var tekinn út af á 40. mínútu og steig KR-vörnin ekki feilspor eftir það. Sigmundur Kristjánsson fór í hans stöðu og Rógvi Jacobsen fór í fremstu víglínu. "Gunnar meiddist en breytingin var líka taktísk," sagði Magnús. "Ég vildi stóran mann í framlínuna vegna roksins."Miðjan hjá KR var betri en gegn Fylki, en getur samt betur. Hið sama má segja um Fram sem saknaði greinilega Nörholt sem var duglegur að skapa færin gegn ÍBV um síðustu helgi. Sóknarmennirnir sýndu ágæta takta, sérstaklega Andri Fannar framan af en þeir voru ávallt stöðvaðir af vörninni eða Kristjáni í markinu, manni leiksins. Framarar sóttu stíft á lokamínútunum, en Magnús sagðist ekki hafa verið áhyggjufullur. "Við gerðum okkar skyldu. Ég er sáttur við mína menn enda lögðu þeir sig mikið fram."Leikjadagskráin er þétt þessa dagana í Landsbankadeildinni og eru þessir leikir þýðingamiklir. 6 stig KR-inga úr fyrstu tveimur umferðunum eru einkar dýrmæt, sérstaklega þegar að andstæðingar þeirra hafa leikið jafn vel og raun ber vitni. Það gæti haft mikið að segja þegar fram líða stundir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×