Sport

Þakkaði Williams-mönnum

Finnski ökuþórinn Kimi Räikkönen vann nokkuð auðveldan sigur í Mónakókappakstrinum í gær, eftir að hafa verið hlutskarpastur í tímatökunum á laugardaginn. Sigurinn var hans annar í röð og fleytir Finnanum unga í annað sætið í keppni ökumanna. Í öðru og þriðja sæti á eftir Räikkönen voru Williams-ökumennirnir Nick Heidfeldt og Íslandsvinurinn Mark Webber, sem náðu að taka fram úr Fernando Alonso á lokakaflanum. Juan Pablo Montoya náði fimmta sætinu eftir að hafa ræst síðastur og á eftir honum komu þeir Schumacher-bræður, Ralf í því fimmta og Michael í sötta. "Ég vil nú helst þakka þeim Williams-mönnum fyrir að fara fram úr Alonso og tryggja mér betri stöðu gagnvart honum í stigakeppninni," sagði hinn hægláti finnski ökumaður eftir sigurinn. "Það er gríðarlega erfitt að ná mönnum sem eru með svona gott forskot í stigakeppninni og þess vegna hjálpaði þetta mér mikið. Ég er að aka vel núna, en þetta er langt tímabil og enn getur allt gerst." Michael Schumacher átti ekki til orð yfir óheppni sinni í keppninni í gær. "Ég held að allt hafi farið úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis hjá okkur í byrjun keppninar," sagði Þjóðverjinn, sem missti framvæng eftir að hann ók á David Coulthard þegar teppa myndaðist í brautinni. "Ég held raunar að við getum bara þakkað fyrir að ná í tvö stig í dag miðað við hversu brösulega gekk hjá okkur," sagði Schumacher á blaðamannafundi eftir keppnina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×