Sport

Tryggvi með þrennu fyrir FH

Þrír leikir fóru fram í 2. umferð Landsbankadeildar karla í dag og lauk þeim öllum með útisigrum. Albert Brynjar Ingason var hetja Fylkismanna þegar hann skoraði sigurmark liðsins í viðbótartíma í 2-1 sigri á Þrótti á Laugardalsvelli. Þróttarar komust yfir á 29. mínútu þegar Páll Einarsson skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að Gunnar Þór braut á Maruniak innan teigs. Valur Fannar Gíslason jafnaði fyrir Fylki eftir hornspyrnu á 55. mínútu eftir þunga sóknarlotu Fylkismanna. Íslandsmeistarar FH slátruðu Grindvíkingum suðurfrá, 1-5 þar sem Tryggvi Guðmundsson skoraði þrennu. Allan Borgvardt og Baldur Bett gerðu eitt markið hvor fyrir FH en Ian Paul McShane klóraði í bakkann fyrir heimamenn undir lokin. Keflavík vann 2-3 útisigur á ÍBV í Eyjum. Hörður Sveinsson, Guðmundur Steinarsson og  Ingvi Rafn Guðmundsson skoruðu mörk Keflvíkinga. Steingrímur Jóhannesson jafnaði metin fyrir ÍBV á 24. mínútu og Andri Ólafsson minnkaði muninn á lokamínútunni. KR tekur á móti Fram á KR velli kl. 19.15 í kvöld og umferðinni lýkur annað kvöld með leik Vals og ÍA. FH-ingar eru efstir með fullt hús stiga eða 6 stig að loknum tveimur leikjum. Þróttur, ÍBV og Grindavík eru á botninum án stiga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×