Sport

Fjórir leikir í Landsbankadeild

Fjórir leikir fara fram í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í dag en þá hefst önnur umferð. Grindavík tekur á móti Íslandsmeisturum FH, ÍBV fær Keflavík í heimsókn og á Laugardalsvelli mættast Þróttur og Fylkir. Þessir leikir hefjast kl. 14. Þá mætast KR og Fram á KR velli kl. 19.15 en bæði lið unnu leiki sína í 1. umferð. KR ingar stálu sigrinum gegn Fylki í 1. umferðinni en Framarar unnu sannfærandi sigur á ÍBV. Markahrókurinn Grétar Ólafur Hjartarson kemur inn í lið KR-inga en hann var meiddur í fyrsta leiknum. Magnús Gylfason, þjálfari KR, á von á hörku leik. Hann segist enn vera að móta liðið þrátt fyrir að það hafi verið að spila í allan vetur því allt önnur knattspyrna sé spiluð þegar á grasið sé komið, auk þess sem margir nýir leikmennn séu í liðinu. Þolinmæði verði því að vera til staðar. Þátturinn Landsbankamörkin verður á dagskrá Sýnar klukkan 22 í kvöld en þá verður farið ítarlega yfir leiki dagsins. Á morgun mánudag mætast Valur og ÍA beint á Sýn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×